No results.

Heiðurshöll ÍSÍ

Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við Hall of Fame á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar.

Með þessu verkefni vill ÍSÍ skapa vettvang til að setja á frekari stall okkar framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.

Vefsíða Heiðurshallar ÍSÍ er: isi.is/um-isi/heidursholl-isi/

Heiðurshöll ÍSÍ - Vala Flosadóttir

Vala Flosadóttir, okkar þriðji verðlaunahafi á Ólympíuleikum, var útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ þann 29. desember árið 2012.

Vala Flosadóttir fæddist 16. febrúar árið 1978. Vala flutti til Svíþjóðar á táningsaldri þar sem hún æfði stangarstökk. Á árunum 1995-1997 setti Vala fimm unglingaheimsmet í stangarstökki. Hún varð fyrsti Evrópumeistari sögunnar í stangarstökki kvenna á EM innanhúss árið 1996, varð önnur á evrópska unglingameistaramótinu árið 1997 og hafnaði í þriðja sæti á EM árið 1998. Sama ár setti hún tvívegis heimsmet í stangarstökki innanhúss. Hún vann Evrópumeistaramót 22 ára og yngri árið 1999 og vann silfur á HM innanhúss sama ár.

Árið 2000 náði Vala þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Sydney með stökki upp á 4,5 metra. Með stökkinu setti hún jafnframt Íslands- og Norðurlandamet. Hún varð fyrst íslenskra kvenna og er sú eina til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum.

Vala var kjörin íþróttamaður ársins á Íslandi árið 2000. Afreksferill Völu var glæsilegur, en Vala hætti keppni árið 2004.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Völu Flosadóttur í Heiðurshöll ÍSÍ.