No results.

Heiðurshöll ÍSÍ

Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við Hall of Fame á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar.

Með þessu verkefni vill ÍSÍ skapa vettvang til að setja á frekari stall okkar framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.

Vefsíða Heiðurshallar ÍSÍ er: isi.is/um-isi/heidursholl-isi/

Heiðurshöll ÍSÍ - Sigríður Sigurðardóttir

Sigríður er fædd 20. ágúst 1942. Hún var ein af fremstu handknattleikskonum sinnar kynslóðar, hafði verið fyrirliði Vals frá 1960 og leiddi meðal annars lið sitt til sigurs á Íslandsmótum. Árið 1964 varð hún fyrst kvenna til að verða valin Íþróttamaður ársins. Með kjörinu varð hún einnig fyrsti íþróttamaðurinn úr hópíþróttum til að hljóta þennan titil.

Sigríður var fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik þegar það hreppti Norðurlandameistaratitilinn í handknattleik á Laugardalsvelli árið 1964 en í þá daga var handknattleikur leikinn utanhúss. Var það fyrsti titill í hópíþrótt sem Íslendingar höfðu unnið. Ísland hafði þá ekki spilað landsleik í kvennaflokki í fjögur ár og átta liðsmenn af fimmtán höfðu engan landsleik spilað fyrir mótið. Þessi eftirminnilegi árangur hafði mikil áhrif á handknattleik stúlkna og kvenna og varð umtalsverð fjölgun í kvennahandknattleik í kjölfarið.

Sigríður var, ásamt liðsfélögum sínum, mikil fyrirmynd ungra stúlkna á þessum tíma og hefur þessi sigur íslenska kvennalandsliðsins verið talinn hafa markað brautina varðandi aukna þátttöku stúlkna og kvenna í íþróttum á Íslandi.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Sigríði Sigurðardóttur í Heiðurshöll ÍSÍ.